Alþjóðlega rallkeppnin Rally Reykjavík fór fram um helgina og var að miklu leyti ekin á Suðurlandi. Veðrið setti strik í reikninginn í keppninni en sumir keppendur lentu í meiri hremmingum en aðrir.
Fyrir hádegi á föstudag var ekin sérleið um Heklu, frá Hringlandahrauni og suður með eldfjallinu að Langvíuhrauni við Fjallabaksleið syðri. Systkinin Marian og Ásta Sigurðarbörn lentu í hremmingum Mitsubishibíl sínum á leiðinni og urðu að hverfa frá keppni eftir að hjólaspyrna brotnaði ásamt dempara.
Seinnipartinn á föstudag var gerður út leiðangur til að sækja bílinn. Farið var á stórum Ford trukk með varahluti og verkfæri. Þegar komið var á staðinn var komið mannskaða veður en tjaldað var yfir viðgerðamenn meðan viðgerð fór fram og gekk hún seint enda erfitt að stunda bílaviðgerðir í 40 metrum á sekúndu og snjóbyl. Síðan var haldið niður af fjallinu.
Rallýbíllinn nýlagaði fór á undan og Fordinn á eftir. Eftir að hafa dregið rallýbílinn nokkrum sinnum upp úr sköflum sem náðu upp fyrir húdd festist hann illilega og skemmdist reyndar lítillega við að reyna að draga hann upp aftur. Þá var ákveðið að skilja hann eftir á Hekluleið, austan við Innri-Vatnafjöll. Enginn var búinn til að standa í þessu strögli og vænlegra að huga að björgun mannskaps en eins bíls.
Það var viturleg ákvörðun því jafnvel stóri trukkurinn átti í miklum vandræðum með að komast niður af fjallinu, og enn snjóaði.
Á laugardeginum fór her vaskra manna, búinn skjólfatnaði sem hæfir pólförum, skóflum, hökum og öðrum tólum sem hugsanlega gætu hjálpað til að að bjarga bílnum. Eftir mikla leit fannst bíllinn, á kafi í snjó. Þar var hann handmokaður upp og fluttur til mannabyggða.
Þetta voru ekki einu hremmingarnar sem rallararnir lentu í því síðdegs á föstudag var sérleið á Hellisheiði felld niður vegna óveðurs og á laugardagsmorgun var sérleiðin um Kaldadal stytt verulega þar sem snjóað hafði á efsta hluta leiðarinnar.