Spennan magnast í 4. deild karla í knattspyrnu þar sem Hamar og Árborg eru tvö fjögurra liða í harðri toppbaráttu. Bæði lið unnu sína leiki í kvöld.
Það var markaveisla á Hlíðarenda þar sem Hamar heimsótti KH. Guido Rancez kom Hamri yfir á 35. mínútu en KH svaraði með tveimur mörkum fyrir leikhlé og staðan var 2-1 í hálfleik. Hamar byrjaði seinni hálfleikinn á því að skora þrjú mörk á sex mínútum. Rancez innsiglaði þrennuna og Máni Snær Benediktsson skoraði eitt og staðan skyndilega orðin 2-4. KH minnkaði muninn fljótlega í 3-4 en Máni Snær var ekki hættur og skoraði fimmta mark Hamars þegar korter var eftir af leiknum. Þá voru Hlíðarendapiltar orðnir manni færri en þeim tókst þó að minnka muninn í 4-5 á 88. mínútu. Á lokamínútunni fór annað rautt spjald á loft og KH kláraði leikinn með 9 leikmenn inni á vellinum og Hamar fagnaði sigri.
Það var öllu minna fjör í leik KÁ og Árborgar á Ásvöllum í Hafnarfirði. Heimamenn leiddu 1-0 í hálfleik en Elvar Orri Sigurbjörnsson og Andrés Karl Guðjónsson skoruðu fyrir Árborg í seinni hálfleiknum og tryggðu liðinu 1-2 sigur.
Árborg lyfti sér upp í 2. sætið í deildinni með sigrinum, liðið er með 31 stig, þremur stigum á eftir toppliði Tindastóls. Þar fyrir neðan eru Ýmir með 30 stig og Hamar með 29 stig og ljóst að síðustu þrjár umferðirnar í deildinni verða æsispennandi.