Árborg lagði Stokkseyri 2-1 í hörkuleik á Selfossvelli í kvöld í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu. Hamar gerði jafntefli við Álftanes á útivelli.
Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi en Þórhallur Aron Másson kom Stokkseyringum yfir á 29. mínútu með góðu marki. Forysta gestanna var þó skammvinn því Arnar Freyr Óskarsson jafnaði metin fimm mínútum síðar og staðan var 1-1 í hálfleik.
Árborgarar léku með vindinn í bakið í síðari hálfleik og voru sterkari aðilinn. Þeir fóru illa með nokkur færi áður en Gunnar Bjarni Oddsson skoraði algjört draumamark, sem reyndist sigurmark leiksins. Gunnar fékk boltann í vítateignum milli tveggja varnarmanna, tók hann á kassann og klippti hann svo með vinstri upp í þaknetið. Gull af marki.
Árborg er með fullt hús stiga í efsta sæti riðilsins en Stokkseyri er án stiga í botnsætinu. Næsti leikur Árborgar er gegn Mídasi á útivelli þann 1. júní og á sama tíma tekur Stokkseyri á móti Ými.
Í D-riðlinum sótti Hamar Álftanes heim og skildu liðin jöfn, 1-1. Fyrri hálfleikur var markalaus en Álftanes komst yfir á 67. mínútu. Örlaugur Magnússon fékk sitt annað gula spjald á 80. mínútu en manni færri náðu Hamarsmenn að jafna leikinn. Magnús Otti Benediktsson skoraði tveimur mínútum fyrir leikslok og tryggði Hamri eitt stig.
Hamar er í 2. sæti D-riðilsins með fjögur stig og mætir næst Kríu á heimavelli þann 31. maí.