Hjólreiðafélag hefur verið stofnað í Rangárþingi eystra enda segja heimamenn svæðið reiðhjólaparadís.
Það er Lilja Einarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og sveitarstjórnarmaður í Rangárþingi eystra, sem hefur haft frumkvæðið að stofnun félagsins. Á fjölskylduhátíðinni Hvolsvöllur.is tóku um 40 manns þátt í hjólreiðaferð í kringum Hvolsfjall og nk. mánudagskvöld, 16. ágúst, munu félagsmenn koma saman fyrir framan íþróttamiðstöðina á Hvolsvelli kl. 20.00 – og hjóla af stað.
Félagið er fyrir alla fjölskylduna og verður lagt í stuttar hjólreiðaferðir í upphafi. Í eina tíð var á ári hverju efnt til Tour de Hvolsvöllur á ári hverju og þá hjólað m.a. frá Reykjavík á Hvolsvöll. Sá sem hjólaði hraðast lagði þessa 100 km leið á 2.48 klst. og var lítilsháttar lengur á leiðinni en áætlunarbíllinn.
Hvolsvöllur og Rangárþing er upplögð reiðhjólaparadís og er fólk hvatt til þess að taka þátt í þessum félagsskap og því heilsuátaki sem efnt verður til í framhaldi að stofnun félagsins.