Knattspyrnufélag Rangæinga er komið í undanúrslit 3. deildar karla eftir 2-1 sigur á Berserkjum á Hvolsvelli í kvöld.
KFR vann fyrri leik liðanna 3-1 og samtals 5-2. Þetta er í fyrsta sinn sem KFR kemst í úrslitakeppnina þannig að stemmningin á Hvolsvelli var gríðarleg í leikslok.
Gestirnir byrjuðu betur í leiknum og áttu tvö sláarskot áður en þeir komust í 0-1 í fyrri hálfleik.
Þau úrslit hefðu fleytt KFR áfram í undanúrslitin en Þórhallur Lárusson var ekki á því að tapa leiknum og skoraði tvö mörk fyrir KFR á lokamínútum leiksins og tryggði þeim sætan sigur.
KFR mætir KB heima og heiman í viðureign um sæti í 2. deildinni en KB vann ótrúlegan 3-0 sigur á Sindra á Hornafirði í kvöld og samtals 4-3.