Knattspyrnufélag Rangæinga tapaði stórt þegar liðið fékk Handknattleiksfélag Kópavogs í heimsókn í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur á Hvolsvelli voru 1-5.
Það var hávaðarok á Hvolsvelli framan af leiknum en HK-ingar voru sterkari í fyrri hálfleik og léku með vindinn í bakið. Staðan var 0-3 í hálfleik en Rangæingar fengu á sig klaufaleg mörk en áttu sjálfir nokkur ágæt færi sem ekki nýttust.
Barningurinn hélt áfram í seinni hálfleik, HK komst í 0-4 um miðjan hálfleikinn en Mariusz Baranowski minnkaði muninn í 1-4 með marki úr vítaspyrnu tíu mínútum síðar. HK-ingar áttu hinsvegar síðasta orðið og skoruðu fimmta mark leiksins á 89. mínútu.
KFR er í botnsæti deildarinnar með 5 stig að fjórtán umferðum loknum.