KFR vann mikilvægan sigur á Herði frá Ísafirði þegar liðin mættust í Hvolsvelli í dag í 5. deild karla í knattspyrnu.
Harðarmenn byrjuðu betur en þeir komust yfir á 4. mínútu með sjálfsmarki Rangæinga. Helgi Valur Smárason skuldajafnaði það á 17. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.
Það var fjör í seinni hálfleiknum og á síðustu tíu mínútunum rigndi mörkum. Bjarni Þorvaldsson kom KFR í 2-1 í upphafi seinni hálfleiks og þegar tíu mínútur voru eftir skoraði Helgi Valur aftur og breytti stöðunni í 3-1. Ísfirðingar minnkuðu muninn nokkrum mínútum síðar en Aron Birkir Guðmundsson gerði endanlega út um leikinn í uppbótartímanum og tryggði KFR 4-2 sigur.
KFR er í 2. sæti riðilsins með 9 stig en Hörður í 5. sæti með 6 stig.