KFR vann góðan sigur á Smára þegar liðin mættust í Fagralundi í Kópavogi í dag í 5. deild karla í knattspyrnu.
Smáramenn komust yfir strax á 3. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. Staðan í leikhléi var 1-0.
Í seinni hálfleiknum létu Rangæingar hins vegar til sín taka og Bjarni Þorvaldsson jafnaði metin á 55. mínútu. Um miðjan seinni hálfleikinn kom Heiðar Óli Guðmundsson KFR svo yfir og fimm mínútum fyrir leikslok skoraði Unnar Jón Ásgeirsson og tryggði KFR 1-3 sigur. Rangæingar völdu Tuma Snæ Tómasson mann leiksins en hann átti stórleik á milli stanganna hjá KFR í dag.
Staðan í B-riðli 5. deildarinnar er þannig að KFR er í 2. sæti með 25 stig þegar þrjár umferðir eru eftir af riðlakeppninni en tvö efstu liðin fara í úrslit.