Tveir stórleikir voru í lokaumferð 4. deildar karla í knattspyrnu í dag, KFR tók á móti Árborg og Uppsveitir tóku á móti Stokkseyri. Leikirnir skiptu engu máli hvað stöðu liðanna varðaði þannig að spilað var upp á heiðurinn og montréttinn gegn nágrönnunum.
Á Hvolsvelli komust Rangæingar í 1-0 á 15. mínútu þegar Hjörvar SIgurðsson skoraði eftir klafs í vítateig Árborgar eftir hornspyrnu. Skömmu áður hafði Ingimar Helgi Finnsson, varamaður Árborgar, fengið rautt spjald fyrir að móðga dómarann og fylgdist Ingimar því með leiknum úr brekkunni. Staðan var 1-0 í hálfleik en Jou Calzada tvöfaldaði forystu KFR eftir frábæran sprett á 51. mínútu.
Árborgarar sóttu meira það sem eftir lifði leiks og Sindri Pálmason var nálægt því að minnka muninn með þrumuskoti en Tumi Snær Tómasson varði meistaralega frá honum. Ingi Rafn Ingibergsson náði að klóra í bakkann fyrir Árborg á 84. mínútu en nær komust gestirnir ekki og KFR fagnaði 2-1 sigri. Árborg er í 2. sæti A-riðilsins með 29 stig og fer í úrslitakeppnina en KFR er í 5. sætinu með 21 stig.
Það var sömuleiðis hart barist á Flúðum þar sem Stokkseyringar voru í heimsókn. Leikurinn var galopinn og bæði lið höfðu fengið dauðafæri áður en Örvar Hugason kom Stokkseyringum yfir á 28. mínútu. Uppsveitamenn voru hins vegar fljótir að jafna í seinni hálfleiknum en Albert Rútsson skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu á 48. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum þrátt fyrir fín færi og lokatölur urðu 1-1. Eins og á Hvolsvelli fór rautt spjald á loft á Flúðum en Máni Snær Benediktsson sá rautt í uppbótartímanum eftir að hafa gefið leikmanni Stokkseyrar olnbogaskot. Uppsveitir luku keppni í 4. sæti B-riðilsins með 16 atig en Stokkseyringar eru í 7. sæti með 15 stig.