Rangæingar völtuðu yfir tíu Uppsveitamenn

Bjarni Þorvaldsson skoraði tvö í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsveitir og KFR luku keppni í 5. deild karla í knattspyrnu í sumar með Suðurlandsslag á Flúðavelli.

KFR komst yfir á 23. mínútu þegar Gísli Þór Brynjarsson varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net. Það var þó engan bilbug að finna á Uppsveitamönnum og Tómas Ingi Ármann jafnaði metin á 39. mínútu. Fjórum mínútum síðar var Samu Hernández rekinn af velli og heimamenn því manni færri meira en hálfan leikinn. Bjarni Þorvaldsson kom KFR svo í 1-2 á lokamínútu fyrri hálfleiks og þannig stóðu leikar í leikhléi.

Það var hart barist í seinni hálfleiknum en þegar leið á leikinn kom liðsmunurinn berlega í ljós því KFR keyrði yfir ÍBU á lokakaflanum. Heiðar Óli Guðmundsson, Bjarni Þorvalds, Helgi Valur Smárason og Teitur Snær Vignisson skoruðu allir á síðustu fjórtán mínútunum og tryggðu KFR 1-6 sigur.

KFR lauk keppni í 3. sæti B-riðilsins með 32 stig en Uppsveitir eru í 6. sæti með 14 stig.

Fyrri greinSamningur framlengdur við Háskólafélag Suðurlands
Næsta greinTöðugjaldahátíðin heppnaðist vel