Selfyssingar unnu ÍR 28-23 á heimavelli þegar liðin hófu aftur leik í Olísdeild karla í handbolta að loknu sóttvarnahléi.
Selfoss komst í 3-0 en ÍR jafnaði 7-7 og spilamennska Selfyssinga var ekki spennandi á þessum kafla. Þeir hysjuðu þó upp um sig fyrir hálfleik og leiddu 13-9 í leikhléi.
Seinni hálfleikurinn var jafn en Selfyssingar héldu forskotinu og var það helst að þakka markmanni Selfoss, Vilius Rasimas, sem lokaði og læsti ÍR-inga úti. Að lokum unnu Selfyssingar sanngjarnan, fimm marka sigur á botnliði ÍR sem enn hefur ekki unnið leik í vetur.
Atli Ævar Ingólfsson var frábær í sókninni hjá Selfyssingum í dag og skoraði 7 mörk úr 8 skotum. Hergeir Grímsson skoraði 7/3 mörk, Einar Sverrisson 5, Gunnar Flosi Grétarsson og Tryggvi Þórisson 2 og þeir Magnús Öder Einarsson, Andri Dagur Ófeigsson og Arnór Logi Hákonarson skoruðu allir 1 mark.
Rasimas átti stórleik í marki Selfoss, varði 22/2 skot og var með 48% markvörslu.