Knattspyrnufélag Rangæinga tapaði 2-4 þegar liðið fékk Dalvík/Reyni í heimsókn á Hvolsvöll í gær.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en gestirnir voru fyrri til að skora og komust yfir strax á 6. mínútu. Tíu mínútum síðar jafnaði Mateusz Lis leikinn fyrir KFR en Dalvík/Reynir skoraði aftur á 30. mínútu og staðan var 1-2 í hálfleik.
Strax á annarri mínútu síðari hálfleiks fékk Lárus Viðar Stefánsson, fyrirliði KFR, beint rautt spjald fyrir brot. Rangæingar voru ósáttir við dóminn og höfðu nokkuð til síns máls. Þeir voru hins vegar nokkra stund að ná áttum eftir rauða spjaldið og á næstu þremur mínútum skoruðu gestirnir tvö mörk og gerðu nánast út um leikinn.
Guðbergur Baldursson náði að klóra í bakkann fyrir KFR á 77. mínútu en manni færri komust Rangæingar ekki nær.