Selfoss náði að bjarga jafntefli eftir að hafa lent 0-2 undir þegar KFG kom í heimsókn á Jáverk-völlinn í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Leikurinn var bráðfjörugur og gestirnir úr Garðabæ, sem eru í bullandi fallbaráttu, létu heldur betur finna fyrir sér. Þeir byrjuðu betur og komust yfir strax á 9. mínútu. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks en bæði lið fengu fín færi í fyrri hálfleiknum
Seinni hálfleikur fór fjörlega af stað og bæði lið gerðu sig gildandi en á 56. mínútu komst KFG í 0-2 með frábæru aukaspyrnumarki.
Síðustu tuttugu mínúturnar féllu gestirnir aftar á völlinn og hugðust halda fengnum hlut. Það getur reynst hættulegt enda gengu Selfyssingar á lagið og skoruðu tvisvar á síðasta korterinu.
Jón Vignir Pétursson minnkaði muninn með lúmsku skoti á 74. mínútu og á annarri mínútu uppbótartímans jafnaði Reynir Freyr Sveinsson með glæsilegu skallamarki af stuttu færi eftir sendingu frá Aroni Fannari Birgissyni.
Toppbaráttan í 2. deildinni er að harðna. Selfoss er í efsta sætinu með 26 stig þegar mótið er hálfnað, þremur stigum á undan Víkingi Ó og þar á eftir kemur KFA með 22 stig og Þróttur Vogum með 19.