Stokkseyri og KFR unnu góða sigra í 5. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Reynslan réði ríkjum á Stokkseyri á meðan ellefu mörk voru skoruð á Hvolsvelli
Stokkseyringar voru ferskir í upphafi leiks gegn Álafossi og Þórhallur Aron Másson kom þeim yfir á 18. mínútu þegar hann fékk frábæra sendingu innfyrir og kláraði færið af öryggi. Ásgrímur Þór Bjarnason bætti öðru marki við á 35. mínútu en á 44. mínútu fengu gestirnir vítaspyrnu og minnkuðu muninn úr henni.
Álafoss sótti meira í seinni hálfleiknum en Stokkseyrarvörnin stóð vaktina með prýði. Þar stóð Páll Bergsson í stórræðum og uppi varð fótur og fit þegar hann missti fingur úr lið snemma í seinni hálfleiknum. Áhorfandi með skipstjórnarréttindi gerði sér hins vegar lítið fyrir og kippti Páli aftur í liðinn og hann hélt leik áfram.
Sóknir Álafoss þyngdust þegar leið á en Stokkseyringar áttu ása upp í erminni og dældu hverjum reynsluboltanum á fætur öðrum inn af bekknum til að loka leiknum. Einn þeirra, Arilíus Marteinsson, tók frábæra aukaspyrnu á 75. mínútu, beint á kollinn á Hákoni Loga Stefánssyni sem stökk manna hæst, stangaði boltann í netið og tryggði Stokkseyri 3-1 sigur.
Hjörvar veislustjóri á Hvolsvelli
Það var boðið upp á sannkallaða markaveislu í viðureign KFR og Skautafélags Reykjavíkur á Hvolsvelli. Þar var Hjörvar Sigurðsson veislustjórinn en hann skoraði þrennu í 7-4 sigri KFR.
Bjarni Þorvaldsson kom Rangæingum yfir á 21. mínútu en gestirnir jöfnuðu strax í kjölfarið. Þá var komið að Hjörvari og hann skoraði tvö mörk með stuttu millibili og staðan var 3-1 í hálfleik.
Adam Örn Sveinbjörnsson opnaði seinni hálfleikinn á glæsimarki eftir nokkrar sekúndur en um miðjan seinni hálfleikinn minnkaði SR muninn í 4-2. Þá kom frábær kafli hjá KFR og þeir Rúnar Þorvaldsson, Hjörvar og Helgi Valur Smárason skoruðu allir á fjögurra mínútna kafla og breyttu stöðunni í 7-2. Skautafélagið átti hins vegar lokaorðið með tveimur mörkum á lokakaflanum.
Staðan í 5. deildinni er þannig að í A-riðlinum er Stokkseyri í 4. sæti með 12 stig en í B-riðlinum er KFR í 2. sæti með 15 stig.