Reynslusigur á Stokkseyri og ellefu mörk á Hvolsvelli

Stokkseyringar fagna marki Hákons Loga, sem gerði út um leikinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyri og KFR unnu góða sigra í 5. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Reynslan réði ríkjum á Stokkseyri á meðan ellefu mörk voru skoruð á Hvolsvelli

Stokkseyringar voru ferskir í upphafi leiks gegn Álafossi og Þórhallur Aron Másson kom þeim yfir á 18. mínútu þegar hann fékk frábæra sendingu innfyrir og kláraði færið af öryggi. Ásgrímur Þór Bjarnason bætti öðru marki við á 35. mínútu en á 44. mínútu fengu gestirnir vítaspyrnu og minnkuðu muninn úr henni.

Álafoss sótti meira í seinni hálfleiknum en Stokkseyrarvörnin stóð vaktina með prýði. Þar stóð Páll Bergsson í stórræðum og uppi varð fótur og fit þegar hann missti fingur úr lið snemma í seinni hálfleiknum. Áhorfandi með skipstjórnarréttindi gerði sér hins vegar lítið fyrir og kippti Páli aftur í liðinn og hann hélt leik áfram.

Sóknir Álafoss þyngdust þegar leið á en Stokkseyringar áttu ása upp í erminni og dældu hverjum reynsluboltanum á fætur öðrum inn af bekknum til að loka leiknum. Einn þeirra, Arilíus Marteinsson, tók frábæra aukaspyrnu á 75. mínútu, beint á kollinn á Hákoni Loga Stefánssyni sem stökk manna hæst, stangaði boltann í netið og tryggði Stokkseyri 3-1 sigur.

Páll Bergsson fær aðhlynningu frá áhorfanda með skipstjórnarréttindi, sem kippti honum í lið. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Reynsluboltarnir fjórir sem komu inn af bekknum hjá Stokkseyri hafa samtals spilað 1.124 KSÍ leiki. (F.v.) Arilíus Marteinsson, Örvar Hugason, Lárus Arnar Guðmundsson og Guðmundur Garðar Sigfússon, sem fagnaði fertugsafmælinu í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hjörvar veislustjóri á Hvolsvelli
Það var boðið upp á sannkallaða markaveislu í viðureign KFR og Skautafélags Reykjavíkur á Hvolsvelli. Þar var Hjörvar Sigurðsson veislustjórinn en hann skoraði þrennu í 7-4 sigri KFR.

Bjarni Þorvaldsson kom Rangæingum yfir á 21. mínútu en gestirnir jöfnuðu strax í kjölfarið. Þá var komið að Hjörvari og hann skoraði tvö mörk með stuttu millibili og staðan var 3-1 í hálfleik.

Adam Örn Sveinbjörnsson opnaði seinni hálfleikinn á glæsimarki eftir nokkrar sekúndur en um miðjan seinni hálfleikinn minnkaði SR muninn í 4-2. Þá kom frábær kafli hjá KFR og þeir Rúnar Þorvaldsson, Hjörvar og Helgi Valur Smárason skoruðu allir á fjögurra mínútna kafla og breyttu stöðunni í 7-2. Skautafélagið átti hins vegar lokaorðið með tveimur mörkum á lokakaflanum.

Staðan í 5. deildinni er þannig að í A-riðlinum er Stokkseyri í 4. sæti með 12 stig en í B-riðlinum er KFR í 2. sæti með 15 stig.

Hjörvar Sigurðsson og Adam Örn Sveinbjörnsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinRúður og speglar brotnuðu í björgunarsveitarbíl
Næsta greinGjaldskrá sundlaugarinnar á Borg ólögleg