„Reynum að halda áfram að koma á óvart“

Umspilsleikirnir 1. deildar karla í handbolta hefjast í dag en Selfyssingar mæta Aftureldingu að Varmá kl. 19:30.

„Staðan á hópnum er ágæt. Við höfum æft vel en vitum að þetta verður erfitt enda er Afturelding með mun meiri reynslu, ekki síst úr svona leikjum. Þeir eru jú í úrvalsdeild sem stendur og eru að verja það sæti. Við munum reyna að halda áfram að koma á óvart,“ sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari, í samtali við sunnlenska.is.

Afturelding varð í næst neðsta sæti í N1 deildinni en tvö neðstu liðin voru langneðst í deildinni. Arnar segir að erfitt sé að meta styrkleika neðstu liðanna í N1 deildinni miðað við efstu liðin í 1. deild. „Það verður bara að koma í ljós hvar við stöndum. Við höfum spilað tvo æfingaleiki við Aftureldingu og skipst á sigrum en hvað það segir veit ég ekki. Það er þá okkar að sýna að við erum ekki síðri.“

Arnar segir leikina verða að byggjast upp á góðri vörn og markvörslu. Selfyssingar hafa leikið vel eftir áramót og unnið fimm leiki í röð, sem varð til þess að tímabilið lengdist.

Þjálfarinn vill sjá hóp stuðningsmanna á leikjunum framundan. „Það er sumardagurinn fyrsti, og ágætt að skella sér á einn handboltaleik í Mosfellsbænum og svo á heimavöllinn á laugardaginn kl. 16. Liðið er eingöngu skipað heimamönnum og þeir eiga skilið að bæjarbúar standi á bakvið þá,“ segir hann.

Þriðji leikurinn er svo á þriðjudagskvöld ef með þarf, en tvo leiki þarf til að komast áfram. Sigurvegararnir úr viðureigninni mæta annað hvort Stjörnunni eða Víkingum.

Fyrri greinHelgistund og söngur í Skógum
Næsta greinBrotist inn í Þrastalund og Bjarnabúð