Selfoss vann 2-1 sigur á Njarðvík í 2. umferð Borgunarbikars karla í knattspyrnu í kvöld. KFR tapaði 4-0 gegn Haukum og er úr leik.
Fyrri hálfleikur hjá Selfossi og Njarðvík var afar bragðdaufur en Njarðvíkingar komust yfir á 38. mínútu með marki úr vítaspyrnu eftir að Stefán Ragnar Guðlaugsson, fyrirliði Selfoss, hafði brotið á sóknarmanni Njarðvíkur.
Staðan var 0-1 í hálfleik en Selfoss náði að jafna metin á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiks. Þar var að verki Pachu eftir góða sendingu innfyrir frá Inga Rafni Ingibergssyni.
Selfyssingar höfðu yfirhöndina í síðari hálfleik en Njarðvíkingar áttu hættulegar sóknir og hefði hæglega getað skorað. Það stefndi allt í framlengingu þar til sex mínútur voru eftir af leiknum að Richard Sæþór Sigurðsson slapp innfyrir vörn Njarðvíkur og skoraði eftir frábæra sendingu frá Pachu. Selfyssingar voru nær því að bæta við mörkum en J.C. Mack hefði getað skorað þriðja markið þegar hann slapp einn í gegn í uppbótartíma.
Á Ásvöllum sótti KFR sem leikur í 3. deildinni Hauka heim, en Haukar leika í 1. deild. Heimamenn gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik þar sem Elton Barros, fyrrum leikmaður Selfoss, skoraði meðal annars þrennu. Staðan var 4-0 í hálfleik en Rangæingar héldu hreinu í seinni hálfleik.
Selfyssingar eru því komnir í 32-liða úrslitin og á morgun kemur í ljós hvort Hamarsmenn fylgi þeim þangað en Hamar tekur á móti Reyni Sandgerði á Grýluvelli kl. 19:00.