Risastig hjá Selfyssingum – Ægir tapaði sjötta leiknum í röð

Selfyssingar fagna eftir leik gegn KFA. Ljósmynd/Jón Vignir Pétursson

Selfoss vann mikilvægan sigur á KFA í toppbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu þegar liðin mættust í Fjarðarbyggðarhöllinni í dag.

Það var fátt um færi í leiknum og einhverja töfra þurfti til að framkalla sigurmarkið. Fyrirliðinn Jón Vignir Pétursson var með þá í takkaskónum og hann skoraði draumamark af löngu færi rétt fyrir hálfleik. Seinni hálfleikurinn var markalaus og Selfyssingar fögnuðu glæstum sigri.

Það gekk ekki eins vel hjá Ægismönnum í dag en liðið tapaði sjötta leiknum í röð í deildinni þegar það mætti Haukum á Þorlákshafnarvelli. Anton Fannar Kjartansson kom Ægi yfir strax á 3. mínútu en Haukar svöruðu með þremur mörkum fyrir hálfleik. Fjórða mark Hauka kom svo í upphafi seinni hálfleiks en Dimitri Cokic klóraði í bakkann fyrir Ægi þegar hálftími var eftir og þar við sat.

Selfyssingar eru í vænlegri stöðu á toppi deildarinnar með 32 stig og sex stiga forskot á næsta lið. Ægismenn eru hins vegar að sogast niður í fallbaráttu, eru í 10. sæti deildarinnar með 15 stig.

Fyrri greinÓvissustigi lýst yfir: Mikil óvissa um framhaldið
Næsta greinHlaupið hefur náð hámarki