Robinson skaut Hrunamenn í kaf

Gerald Robinson skoraði 49 stig fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var boðið upp á enn einn Suðurlandsslaginn í 1. deild karla í körfubolta í kvöld þegar Selfoss tók á móti Hrunamönnum.

Selfyssingum tókst að hefna ófaranna úr fyrstu viðureign liðanna á Flúðum í vetur þar sem Hrunamenn völtuðu yfir þá. Annað var uppi á teningnum í kvöld en eftir smá hikst í byrjun tóku Selfyssingar leikinn í sínar hendur og Hrunamönnum gekk ákaflega illa að verjast.

Gestirnir frá Flúðum voru ferskir í upphafi, fráköstuðu vel og leiddu 17-28 eftir fyrsta leikhluta. Þá kviknaði á Selfyssingum sem léku prýðilega í 2. leikhluta og náðu að jafna metin með síðasta skoti fyrri hálfleiks, 51-51.

Selfoss lagði svo grunninn að sigrinum með öruggum sóknarleik og góðri vörn i 3. leikhluta. Munurinn varð mestur fjórtán stig í seinni hálfleik, Hrunamenn eltu allan seinni hálfleikinn og náðu tvívegis að minnka muninn í fjögur stig, en nær komust þeir ekki. Lokatölur urðu 113-103.

Gerald Robinson átti frábæran leik og var lang stigahæstur Selfyssinga með 41 stig, Trevon Evans skoraði 25 og Gasper Rojko 18. Hjá Hrunamönnum var Kent Hanson stigahæstur með 29 stig, Karlo Lebo skoraði 27, Clayton Ladine 21, Yngvi Freyr Óskarsson 12 og Kristófer Tjörvi Einarsson 10.

Selfoss er áfram í 6. sæti deildarinnar með 18 stig en Hrunamenn eru í 8. sæti með 12 stig.

Fyrri greinSjór gengur á land á Stokkseyri og Eyrarbakka
Næsta greinFjölbreytt atvinnutækifæri í Árborg