Róðurinn þyngist hjá Þórsurum

Davíð Arnar Ágústsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn tók á móti Njarðvík í 8. umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld. Njarðvíkingar unnu auðveldan sigur og Þórsarar sitja áfram á botni deildarinnar.

Njarðvíkingar byrjuðu á áhlaupi og voru komnir í 9-22 eftir rúmar sex mínútur og staðan var 19-30 að loknum fyrsta leikhluta. Sóknarleikurinn gekk betur hjá Þórsurum í 2. leikhluta en vörnin var áfram slitrótt og staðan var 47-59 í hálfleik.

Þriðji leikhluti var í járnum en Þórsurum tókst ekki að saxa á forskotið og í 4. leikhluta tók steininn endanlega úr, Njarðvíkingar skoruðu 37 stig og unnu að lokum stórsigur, 88-119.

Vincent Shahid var stigahæstur Þórsara með 30 stig og 9 fráköst og Styrmir Snær Þrastarson átti sömuleiðis fínan leik með 18 stig og 7 fráköst en framlag annarra leikmanna var mun minna.

Eftir átta umferðir eru Þórsarar á botninum með 2 stig en Njarðvík er í 3. sæti með 10 stig.

Tölfræði Þórs: Vincent Shahid 30/4 fráköst/9 stoðsendingar, Styrmir Snær Þrastarson 18/7 fráköst/6 stoðsendingar, Davíð Arnar Ágústsson 11, Pablo Hernandez 11/7 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 8, Fotios Lampropoulos 8/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 2.

Fyrri greinFesti bílinn í Landmannalaugum
Næsta greinHamar velgdi Álftanesi hressilega undir uggum