Rosalegt kvöld í Hveragerði – Oddaleikur á laugardag

Hamar og Fjölnir áttust við í einum magnaðasta körfuboltaleik síðari ára á Suðurlandi þegar liðin mættust í leik fjögur í úrslitakeppni 1. deildar karla í kvöld.

Með sigri hefði Hamar sent Fjölni í sumarfrí en Fjölnismenn sigruðu að lokum, 114-116, og því verður oddaleikur í Dalhúsum í Grafarvogi kl. 17:00 næsta laugardag. Tvær framlengingar þurfti til að knýja fram úrslit í kvöld en Hamarsmenn áttu ótrúlega endurkomu í tvígang í leiknum. Stemmningin í húsinu var eins og hún verður best, Fjölnismenn fjölmenntu yfir Heiðina, en um 500 manns voru í stúkunni.

Fjölnismenn byrjuðu miklu betur og náðu mest fjórtán stiga forskoti í upphafi. Staðan var 20-30 þegar 1. leikhluta var lokið en Hamar minnkaði muninn í 45-49 fyrir leikhlé.

Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn af sama krafti og þeir sýndu í upphafi. Staðan var 65-80 þegar síðasti leikhlutinn hófst og útlitið ekki bjart fyrir Hamar. Þeir söxuðu á forskot Fjölnis sem virtist ætla að hanga á sigrinum en þegar 8,8 sekúndur voru eftir var staðan 92-97 fyrir Fjölni.

Erlendur Stefánsson negldi þá niður þriggja stiga körfu og Hamar sendi Fjölni á vítalínuna. Þar rataði eitt skot niður, Hamar brunaði í sókn og Christopher Woods jafnaði með þriggja stiga körfu þegar 1,2 sekúndur voru eftir af leiknum, 98-98.

Framlenging því raunin en þar gekk ekkert upp hjá Hamri sem gat ekki keypt körfu á tímabili. Þegar fimm sekúndur voru eftir leiddi Fjölnir með fjórum stigum, 101-105. Woods var þá staddur á vítalínunni þar sem hann setti niður tvö skot og um leið og Fjölnir hugðist hefja sókn stal Erlendur af þeim boltanum og jafnaði, 105-105.

Þá var aftur framlengt og leikurinn var áfram hnífjafn. Þreytan var greinilega farin að segja til sín því bæði lið gerðu mistök en Fjölnismenn skoruðu úr tveimur síðustu sóknum sínum á meðan Hvergerðingar hittu ekki úr sínum. Oddur Ólafsson var þó grátlega nærri því að tryggja Hamri þriðju framlenginguna með lokaskoti leiksins þar sem boltinn dansaði á hringnum en fór ekki ofaní. Fjölnismenn tóku frákastið og fögnuðu sigri.

Tölfræði Hamars: Christopher Woods 44 stig/26 fráköst/4 varin skot, Erlendur Stefánsson 32 stig/5 fráköst, Örn Sigurðarson 12 stig, Hilmar Pétursson 8 stig, Snorri Þorvaldsson 7 stig/6 fráköst, Oddur Ólafsson 5 stig/6 fráköst, Smári Hrafnsson 4 stig, Rúnar Ingi Erlingsson 2 stig/4 fráköst/7 stoðsendingar.

Fyrri greinLions úthlutaði hátt í tveimur milljónum króna
Næsta grein„Þrá og vilji í mínum mönnum“