Rúm sekúnda skildi að fremstu menn

Fjallahjólakeppnin Rangárþing Ultra var haldin í fyrsta skipti síðastliðinn laugardag. Keppnin gekk gríðarlega vel og um 80 keppendur hjóluðu.

Þrátt fyrir örlítinn mótvind á síðari hluta leiðarinnar þá skiluðu sér allir í mark og keppendur gríðarlega ánægðir með ægifagra náttúru svæðisins og skemmtilega leið. Keppnin var mjög spennandi í karlaflokki en þar var Ingvar Ómarsson 1,2 sekúndum á undan Birki Snæ Ingvasyni í mark.

Það eru sveitarfélögin Rangárþing ytra og Rangárþing eystra sem standa saman að keppninni en keppnin er sprottin uppúr hinni vinsælu götuhjólakeppni Tour de Hvolsvöllur.

Ræst var á Hellu kl. 12:00 og var það Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri Rangárþings ytra sem ræsti, í stað þess að hjóla útá þjóðveg lá leiðin í gegnum þorpið á Hellu, upp hjá Helluvaði og þaðan upp Helluvaðssand. Farið var um Rangárvelli þar til komið var að Fiská og þaðan farið niður í Fljótshlíð og loks endað á Hvolsvelli. Þeir allra fyrstu voru ekki nema 1 klst og 45 mínútur að hjóla þessa 50 km löngu leið. Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri Rangárþings eystra veitti svo verðlaun á Hvolsvelli að lokinni keppni.

Á næsta ári verður leiðinni snúið við. Byrjað verður á Hvolsvelli en endað á Hellu. Þá er búist við ennþá stærri keppni og ekki seinna vænna en hefja undirbúning strax fyrir þá sem ætla að taka þátt.

Keppnisstjórn þakkar keppendum fyrir þátttökuna og öllum sem aðstoðuð við að gera þessa keppni að veruleika.

Heildarúrslit voru þessi:
Karlar

1 Ingvar Ómarsson 01:46:44.2
2 Birkir Snær Ingvason 01:46:45.4
3 Kristjan Jakobsson 01:54:37.8

Konur
1 Anna Kristín Pétursdóttir 02:19:19.9
2 Kristrún Lilja Júlíusdóttir 02:22:54.7
3 Valborg Guðlaugsdóttir 02:24:03.0

Nánari úrslit eru aðgengileg á www.timatakan.net og allar upplýsingar á www.rangarthingultra.is

Fyrri greinTveir piltar slösuðust þegar fjórhjól valt
Næsta greinDuo Atlantica í Strandarkirkju