Rúmar 20 milljónir króna til sunnlenskra íþróttafélaga

Frá kynningarfundi mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra í desember sl. þar sem aðgerðirnar voru kynntar. Með á myndinni er Lárus Blöndal forseti ÍSÍ. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur staðfest tillögur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands að skiptingu á 300 milljóna króna stuðningi til íþróttafélaga sem starfrækja skipulagt íþróttastarf fyrir börn og unglinga 6-18 ára. 

Af þessum 300 milljónum renna rúmlega 20,4 milljónir króna til íþróttafélaga á Suðurlandi. Viðbótarstuðningur þessi er veittur félögunum vegna afleiðinga sóttvarnaráðstafana á síðasta ári, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Meira en helmingur fjárhæðarinnar á Suðurlandi fer til Ungmennafélags Selfoss, tæpar 10,7 milljónir króna. Íþróttafélagið Hamar í Hveragerði fær tæplega 2,2 milljónir króna og Ungmennafélagið Þór í Þorlákshöfn rúmlega 1,5 milljónir króna.

Tuttugu og átta önnur sunnlensk íþróttafélög fá styrk. Í Rangárvallasýslu fær Hestamannafélagið Geysir hæsta styrkinn, tæplega 627 þúsund krónur og í V-Skaftafellssýslu fær Ungmennafélagið Katla rúmlega 177 þúsund krónur.

„Tillaga ÍSÍ felur í sér að alls 224 félög [á landinu] hljóta styrk til þess að mæta þeim aðstæðum sem langvarandi samkomubann og sóttvarnarráðstafanir höfðu á starfsemi þeirra. Stuðningurinn nú kemur til viðbótar 450 milljónum króna sem úthlutað var til rúmlega 200 íþrótta- og ungmennafélaga sem lið í fjárfestingarátaki stjórnvalda í fyrra,“ segir Lilja Alfreðsdóttir.

Hægt er að sjá yfirlit yfir greiðslurnar hér.

Fyrri greinSunnlendingar sýni biðlund vegna óvissu í bólusetningum
Næsta greinFjórða lag Moskvít komið á streymisveitur