Sætur sigur Þórsara

Þór vann sætan sigur í kvöld þegar spútniklið Domino’s-deildar karla í körfubolta, Tindastóll, kom í heimsókn í Þorlákshöfn.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en gestirnir leiddu 44-48 í hálfleik. Þórsarar skoruðu fyrstu fimm stigin í seinni hálfleik og komust yfir en staðan var jöfn, 72-72, þegar síðasti leikhlutinn hófst.

Þar náðu Þórsarar mest ellefu stiga forskoti, 86-75, þegar tæpar sex mínútur voru eftir af leiknum. Tindastóll jafnaði 91-91 þegar rúm mínúta var eftir en Vincent Sanford svaraði jafnharðan með þriggja stiga körfu fyrir Þór. Grétar Ingi Erlendsson tryggði Þórsurum síðan sigurinn með því að setja niður vítaskot þegar nítján sekúndur voru eftir og staðan þá orðin 97-95. Gestirnir áttu síðustu körfu leiksins og Þórsarar fögnuðu sætum sigri.

Tómas Tómasson var stigahæstur hjá Þór með 24 stig og þeir Grétar Ingi og Sanford skoruðu báðir 20 stig. Emil Karel Einarsson skoraði 12 stig, Oddur Ólafsson 9, Þorsteinn Már Ragnarsson 8 og Nemanja Sovic 4.

Fyrri greinUmhverfisverðlaun á tvo staði
Næsta greinÞriðja tap Hamars í röð