Sætur sigur í Kaplakrika

Kvennalið Selfoss vann sætan útisigur á FH í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í kvöld. Valorie O'Brien tryggði Selfoss 1-2 sigur á lokakafla leiksins.

FH-ingar voru miklu sterkari í fyrri hálfleik og komust yfir á 29. mínútu leiksins. Staðan var 1-0 í hálfleik og gátu Selfyssingar þakkað Michele Dalton fyrir að munurinn var ekki meiri en hún átti stórleik í marki Selfoss.

Það var allt annað að sjá til Selfossliðsins í síðari hálfleik. Guðmunda Brynja Óladóttir jafnaði metin strax á áttundu mínútu síðari hálfleiks með góðu marki en bæði lið áttu ágætar sóknir eftir það. Það var þó ekki fyrr en á 83. mínútu að sigurmarkið kom og þar var O’Brien að verki þegar hún skallaði hornspyrnu frá Tiana Brockway í netið.

Selfyssingar eru því í 2. sæti deildarinnar með sigra í tveimur fyrstu leikjum sínum, eins og topplið Stjörnunnar og Breiðablik sem er í 3. sæti.

„Þetta var kaflaskipt hjá okkur, við vorum ekki góðar í fyrri hálfleik en seinni hálfleikurinn var miklu betri. Þetta er ánægjuleg byrjun á deildinni og nú bíðum við spennt eftir fyrsta heimaleiknum gegn Aftureldingu á laugardaginn,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Fyrri greinSigurmark Hamars í blálokin – Naumt tap hjá Ægi
Næsta greinMynduðu börn í íslensku umhverfi