Sævar Þór Gíslason og Ágústa Tryggvadóttir voru valin íþróttamenn Umf. Selfoss 2009 en aðalfundur félagsins fór fram í gærkvöldi.
Sævar fékk titilinn íþróttakarl Selfoss fyrir afrek sín með knattspyrnuliði Selfyssinga sem vann 1. deildina á síðasta keppnistímabili. Sævar var markahæstur í deildinni og valinn besti leikmaður hennar af forráðamönnum liðanna í deildinni.
Ágústa náði frábærum árangri á frjálsíþróttavellinum á síðasta ári. Hún varð Íslandsmeistari innanhúss í hástökki og fimmtarþraut. Utanhúss varð hún Íslandsmeistari í sjöþraut og bikarmeistari í hástökki. Alls vann hún til tuttugu verðlauna á fimm stærstu mótunum í fyrra og á Landsmóti UMFÍ var hún stigahæsta kona mótsins.
Á fundinum lét Axel Þór Gissurarson af formennsku en nýr formaður félagsins er Grímur Hergeirsson.