Sævar og Viðar framlengja

Framherjarnir skæðu, Viðar Örn Kjartansson og Sævar Þór Gíslason, framlengdu samninga sína við knattspyrnulið Selfoss í lok síðustu viku.

Viðar Örn skrifaði undir þriggja ára samning við Selfoss en gamli maðurinn, Sævar Þór, framlengdi samning sinn til eins árs.

Viðar er 21 árs gamall, uppalinn Selfyssingur, og hefur skorað 17 mörk fyrir liðið í 57 deildarleikjum. Hann skoraði þrjú mörk í tólf leikjum í Pepsi-deildinni í fyrra.

Sævar er mesti markahrókur liðsins á undanförnum árum. Hann verður 36 ára á þessu ári og hefur skorað 61 mark fyrir Selfoss í 78 deildarleikjum frá því að hann sneri aftur til heimahaganna frá Fylki árið 2007. Sævar skoraði fimm mörk í tuttugu leikjum í Pepsi-deildinni í fyrra og var markahæsti leikmaður liðsins fjórða árið í röð.

Fyrri greinHamar vann í markaleik
Næsta greinVegagerðin vildi láta rífa aðstöðuna