Selfoss vann frábæran sigur á KA/Þór í Olísdeild kvenna í handbolta á Akureyri í dag. Lokatölur urðu 21-26 og þar með er ljóst að Selfoss hefur að minnsta kosti tryggt sér sæti í umspili í vor og HK er fallið niður í 1. deild.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, liðin skiptust á um að hafa frumkvæðið en KA/Þór leiddi í hálfleik, 12-11.
Selfoss byrjaði betur í seinni hálfleik, náði fljótlega fjögurra marka forskoti og náðu eftir það að verjast öllum áhlaupum KA/Þórs. Heimakonur náðu að minnka muninn í tvö mörk þegar fjórar mínútur voru eftir, 21-23, en Selfoss skoraði þrjú síðustu mörkin í leiknum og tryggði sér sætan sigur.
Arna Kristín Einarsdóttir var markahæst Selfyssinga með 7/1 mörk, Rakel Guðjónsdóttir skoraði 5, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir, Tinna Soffía Traustadóttir og Katla María Magnúsdóttir 3, Katla Björg Ómarsdóttir og Hulda Hrönn Bragadóttir 2 og Kristín Una Hólmarsdóttir 1.
Cornelia Hermansson, markvörður Selfoss, var besti maður vallarins en hún átti frábæran leik í marki Selfoss, varði 19 skot og var með 48% markvörslu.
Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 7. sæti með 8 stig en KA/Þór er í 5. sæti með 12 stig. HK er á botninum með 2 stig.