Sætur sigur á Hornafirði

Follie Bogan. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann sætan sigur á sterku liði Sindra á útivelli á Hornafirði í kvöld í næst síðustu umferð 1. deildar karla í körfubolta. Lokatölur urðu 89-94.

Selfyssingar byrjuðu betur og náðu fjórtán stiga forskoti í 1. leikhluta en staðan var 15-25 að honum loknum. Sindri tók yfir í upphafi 2. leikhluta og skoraði fjórtán fyrstu stigin en Selfyssingar komu til baka og leiddu 35-40 í hálfleik.

Þriðji leikhluti var spennandi, Selfyssingar höktu í sókninni á upphafsmínútunum en svöruðu svo fyrir sig og í upphafi 4. leikhluta var allt í járnum, 60-60. Selfossliðið var hins vegar skrefinu á undan allan 4. leikhlutann og náði að kæfa öll áhlaup Sindra í fæðingu. Að lokum skildu fimm stig liðin að og Selfyssingar fögnuðu vel.

Follie Bogan var stiga- og framlagshæstur hjá Selfossi með 21 stig og 9 fráköst og Vojtéch Novák var sömuleiðis öflugur með 15 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar.

Þegar ein umferð er eftir af deildarkeppninni er Selfoss í 10. sæti með 14 stig og þeir þurfa sigur gegn toppliði ÍA í lokaumferðinni til þess að eiga möguleika á sæti í úrslitakeppninni.

Sindri-Selfoss 89-94 (15-25, 20-15, 23-20, 31-34)
Tölfræði Selfoss: Follie Bogan 21/9 fráköst, Vojtéch Novák 15/8 fráköst/6 stoðsendingar, Arnór Bjarki Eyþórsson 14, Ari Hrannar Bjarmason 14/4 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 11/5 stoðsendingar, Tristan Máni Morthens 10, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 9.

Fyrri greinÞórsarar eltu allan tímann
Næsta greinStórsigur á heimavelli