Safna brjóstahöldurum í tengslum við Kvennahlaupið

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Rauði krossinn og Sjóvá standa fyrir söfnun á brjóstahöldurum og öðrum undirfötum í tengslum við Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ sem fram fer þann 16. júní nk.

Árlega velja skipuleggjendur Kvennahlaupsins eitt málefni tengt konum til að vekja sérstaka athygli á. Í ár var ákveðið að hvetja þátttakendur hlaupsins til að gefa nærföt (s.s. brjóstahaldara) í fatasafnanir hjálparsamtaka.

Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum þá skilar nærfatnaður sér síður í hefðbundnum fatasöfnunum en annar fatnaður. Margir átti sig einfaldlega ekki á því að eftirspurn sé eftir þessum fatnaði.

Söfnuninni var hleypt af stokkunum í dag en þá mættu Stella Sigurðardóttir, leikmaður Fram í handknattleik og nýkjörinn leikmaður ársins í N1 deild kvenna, og móðir hennar Soffía Bragadóttir, til Rauða krossins til þess að gefa fyrstu brjóstahaldarana.

Söfnunin mun standa út júní en hægt verður að koma með fatnaðinn á söfnunarstöðvar Rauða krossins og í Sorpu en einnig verður tekið við brjóstahöldurum við rásmörk Kvennahlaupsins um allt land á hlaupadaginn.

Hið árlega Sjóva Kvennahlaup ÍSÍ verður haldið þann 16. júní en hlaupið verður á um 90 stöðum um allt land.

Á Suðurlandi eru hlaupastaðir víða eins og á Kirkjubæjarklaustri, Vík í Mýrdal, Hvolsvelli, Hellu, Flúðum, Laugarvatni, Stokkseyri, Eyrarbakka, Þorlákshöfn, Hveragerði og á Selfossi svo einhverjir staðir séu nefndir.

Fyrri greinKostar ekki krónu á völlinn
Næsta greinRetRoBot í Edrúhöllinni í kvöld