Saga kvennaknattspyrnunnar á Selfossi – III

Velgengni Selfoss hélt áfram sumarið 2011 eftir að hafa komist í fyrsta sinn í úrslitakeppnina 2010.

Helena Ólafsdóttir hafði stýrt liðinu fyrra árið en Björn Kristinn Björnsson, eða Bubbi, tekið síðan við því við lok tímabils. Liðið fór á kostum þetta sumarið, vann 10 af 12 leikjum sínum og fékk aðeins á sig fjögur mörk. Sigur í riðlinum staðreynd og við tók úrslitakeppni. Með því að slá þar Keflavík út í undanúrslitum var orðið ljóst að Selfoss myndi spila á meðal þeirra bestu í fyrsta sinn.

Katrín Ýr Friðgeirsdóttir man vel eftir þessum leikjum. „Tilfinningin þegar flautað var til leiksloka var ólýsanleg. Það er mikill heiður að hafa fengið að vera leikmaður liðsins við þessi tímamót.“ Tap í úrslitaleiknum gegn FH skipti því litlu máli í hinu stóra samhengi.

Fyrsta ár Selfoss í Pepsi deildinni var erfitt. Liðið var í stöðugri baráttu um að halda sér í deildinni, en Fylkir og Afturelding börðust ásamt Selfossi um að halda sér uppi. Þegar aðeins þrjár umferðir voru eftir var staðan sú að Selfoss var með 13 stig og Afturelding með 12 stig ásamt Fylki, sem tók á móti Selfossi. Með sigri yrði nokkuð ljóst að Selfoss myndi tryggja áframhaldandi veru sína meðal þeirra bestu. Það tókst og Selfoss hélt sæti sínu í deildinni.

Það var svo sannarlega flottur árangur hjá liðinu að ná að halda sér uppi í sínu fyrsta ári í efstu deild. Þrátt fyrir það urðu þjálfaraskipti eftir tímabilið. Björn Kristinn hætti með liðið og var Gunnar Borgþórsson ráðinn í staðinn. Varnarleikurinn var strax eitthvað sem hann einblíndi á að laga. Liðið hafði fengið á sig 77 mörk á sínu fyrsta ári í efstu deild, „Við einbeittum okkur að því að verjast saman sem lið, við æfðum einfalda taktík sem virkaði vel og settum okkur samhliða því ýmis markmið. Fá ekki á okkur mörk úr föstum leikatriðum, fækka mörkum á okkur um meira en helming og annað sem við gátum mælt.“

Þessar breytingar höfðu augljóslega áhrif en liðið fékk aðeins á sig 33 mörk á tímabilinu. Þeir leikmenn sem ég talaði við eru allar sammála að Gunni hefur haft mikil áhrif á liðið. „Gunnar er einn fremsti knattspyrnuþjálfari landsins, hann er með frábærar æfingar, mikinn aga, metnað og gott skipulag. Auk þess gerir hann miklar kröfur til leikmanna og starfsfólksins í kringum liðið. Allt þetta eru hlutir sem skipta miklu máli þegar ná á árangri og hefur það sýnt sig að við erum á réttri leið,“ sagði Katrín Ýr.


Dagný fagnar marki á Selfossvelli í sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eftir að hafa lent í 6. sæti deildarinnar á fyrsta tímabili Gunnars með liðið hefur það verið í stöðugri framför í sumar. Sterkir leikmenn gengu til liðs við Selfoss fyrir sumarið en þar má helst nefna Dagnýju Brynjarsdóttur og Thelmu Björk Einarsdóttur. Dagný er einn af lykilmönnum íslenska landsliðsins og Thelma hefur jafnframt leikið 9 leiki með því. Það kom töluvert á óvart þegar Selfoss kynnti Dagnýju sem leikmann liðsins í vetur. Lið sem er aðeins á sínu þriðja ári í efstu deild að krækja í einn allra besta leikmann landsins. Dagný sjálf segir að þetta hafi ekki verið erfið ákvörðun. „Gunni hafði mjög mikil áhrif á ákvörðun mína. Hann þjálfaði mig fyrst í akademíunni í FSu og svo í tvö ár hjá Val. Ég vissi því að hann gæti hjálpað mér að bæta mig enn meira þessa þrjá mánuði sem ég yrði á Íslandi. Ég er æfingasjúk, en Gunni er líklega verri. Ég vissi að það myndi henta mér vel að hafa hann sem þjálfara minn. Ég sá einnig að hann væri með ungt og spennandi lið í höndunum. Stelpur allsstaðar að af Suðurlandinu og það heillaði mig að deila með þeim minni reynslu og hjálpa þeim að bæta sig.“

Það hefur ekki farið framhjá neinum sem hafa fylgst með liðinu í sumar að hópurinn er mjög samheldinn. Thelma Björk telur það vera lykillinn að velgengni liðsins. „Ég held að lykillinn að velgengni liðsins felist í samheldnum og metnaðarfullum hóp þar sem allir eru að vinna markvisst að markmiðum liðsins. Liðið samanstendur af virkilega hæfileikaríkum einstaklingum sem ná að skapa jafnvel enn betri liðsheild. Við erum líka það heppnar að vera með frábært þjálfarateymi sem gerir allt til þess að hjálpa okkur að verða betri leikmenn. Það eru svo mörg atriði sem skapa velgengni liðsins og allir sem eru í kringum liðið á einn eða annan hátt eiga sinn þátt í þessum frábæra árangri.“

Þær stöllur, Dagný og Thelma, eru sammála því að gríðarlega vel sé haldið utan um liðið og að öll umgjörð þess sé hreint út sagt frábær. „Mér finnst þetta frábær klúbbur, miklu betri en ég þorði einhvern tímann að vona. Kvennaboltinn á það til að lenda undir en ég fann aldrei fyrir því þessa þrjá mánuði sem ég var á Selfossi í sumar. Eftir að hafa spilað með Val í sjö ár var ég farinn að sakna stemningarinnar sem maður finnur oft úti á landi í minni þorpum, en ég er alin upp á Hellu. Þegar ég kom á Selfoss þá fann ég strax hvað bæjarfélagið stóð við bakið á manni.“ sagði Dagný.

„Það sem skapar þessa umgjörð eru klárlega leikmenn liðsins og fólkið í kringum það. Það eru ekki öll lið svo heppin að luma á einu pari af Torfa og Svövu. Þau eru hreint út sagt frábær. Það er bara svo mikil fjölskyldustemning í kringum Selfoss-liðið. Ég og Celeste vorum svo heppnar að fá að búa hjá foreldrum Torfa, Dísu og Sigga, í sumar í besta yfirlæti sem hægt er að hugsa sér. Svo má að sjálfsögðu ekki gleyma bestu stuðningsmönnunum sem eiga stúkuna í hvert einasta skipti. Skiptir ekki máli hvort það sé heima- eða útileikur.“ bætti Thelma við.

Það þarf vart að nefna það að það er skyldumæting á Laugardalsvöllinn fyrir alla Sunnlendinga á laugardaginn. Stærsti leikur Selfoss frá upphafi, sjálfur bikarúrslitaleikurinn. Það er kannski best að gefa Gunna sjálfum orðið. „Laugardagurinn verður dagurinn sem allir eiga eftir að muna eftir því þá lék Selfoss í fyrsta sinn til úrslita í bikarnum. Menn eiga ekki eftir að muna hvernig veðrið var, hver andstæðingurinn var eða hvernig leikurinn fór. Menn munu muna eftir því að röð af grænum rútum fóru í halarófu frá Hótel Selfoss, eftir fólkinu sem það hitti í stúkunni, gleðinni, látunum, mannfjöldanum og heimkomunni. Hittumst á laugardaginn, förum öll og gerum þetta saman. Síðastur yfir brúnna slekkur ljósin!“

Jóhann Ólafur Sigurðsson rekur sögu meistaraflokks kvenna í knattspyrnu á Selfossi. Fyrstu tveir pistlarnir eru aðgengilegir hér fyrir neðan.

TENGDAR GREINAR:
Saga kvennaknattspyrnunnar á Selfossi – I
Saga kvennaknattspyrnunnar á Selfossi – II

Fyrri greinGleðidagur í FSu
Næsta greinSúpurölt í kvöld