Sagan endurtekur sig hjá Ægi

Ivo Braz. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn töpuðu 2-3 þegar Þór Akureyri kom í heimsókn í Þorlákshöfn í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld. Gestirnir skoruðu sigurmarkið í uppbótartímanum.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og Ægismenn fengu fín færi en Þórsarar refsuðu þeim með tveimur mörkum úr skyndisóknum með þriggja mínútna milli bili um miðjan fyrri hálfleikinn. Ægismenn voru sviknir um vítaspyrnu á lokamínútum fyrri hálfleiks þegar varnarmaður Þórs fékk boltann í höndina og staðan var 0-2 í hálfleik.

Ægismenn mættu mjög sprækir inn í seinni hálfleikinn og áttu góðar sóknir áður en Ivo Braz minnkaði muninn úr vítaspyrnu á 68. mínútu eftir að brotið hafði verið á Jóhannesi Breka Harðarsyni innan teigs. Fimm mínútum síðar kom fyrirgjöf inn á vítateig Þórs sem varnarmaður renndi sér í og sendi boltann í netið, 2-2.

Lokakaflinn var spennandi og bæði lið fengu fín færi en eins og svo oft áður í sumar voru heilladísirnar ekki á bandi Ægismanna og á fjórðu mínútu uppbótartímans áttu Þórsarar skot að marki sem fór í varnarmann og boltinn lak í netið.

Ægismenn eru áfram í botnsæti deildarinnar með 8 stig en Þórsarar lyftu sér upp í 7. sætið með 20 stig.

Fyrri greinEngin núll á tombólu kvenfélagsins
Næsta greinTíu KÁ menn lögðu Hamar