Selfoss vann sanngjarnan sigur á Dalvík/Reyni fyrir tómri stúku á JÁVERK-vellinum á Selfossi í dag. Lokatölur urðu 3-1.
„Við byrjuðum svakalega vel og gerðum allt sem við lögðum upp með. Við náðum að setja boltann afturfyrir þá og pressa á þá og héldum boltanum vel. Eftir að við komumst í 2-0 hafði Dalvík/Reynir engu að tapa þannig að þeir fóru að pressa og gerðu það vel. Það má alveg hrósa þeim fyrir það og við náðum ekki að tækla það nógu vel. Þetta var erfiður leikur eins og allir leikir í þessari deild. Það er eiginlega sama hvernig maður nær að vinna, það er bara fínt að ná að klára með sigri,“ sagði Einar Ottó Antonsson, aðstoðarþjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is. Einar stýrði liðinu í dag í fjarveru Dean Martin sem er í sóttkví.
Tuttugu dagar eru frá síðasta deildarleik Selfyssinga en hlé var gert á Íslandsmótinu vegna samkomutakmarkana. Einar segir að Selfossliðið hafi nýtt hléið vel.
„Það er búið að vera mjög stutt á milli leikja í sumar, þannig að við nýttum hléið vel og náðum mörgum öflugum æfingum þar sem við náðum að keyra tempó og læti. Þetta voru öðruvísi æfingar vegna sóttvarna en við náðum að æfa vel og sýndum í upphafi leiks í dag að við vorum tilbúnir í leikinn.“
Í góðri stöðu eftir tuttugu mínútur
Selfyssingar byrjuðu vel í leiknum og Daniel Majkic kom þeim yfir á 15. mínútu með skoti utan teigs, sem fór í varnarmann og yfir markvörð D/R. Átta mínútum síðar kom önnur snörp sókn Selfyssinga sem lauk með marki frá Ingva Rafni Óskarssyni. Eftir annað markið datt leikurinn aðeins niður, gestirnir komust meira inn í leikinn en færin voru ekki mörg.
Dalvik/Reynir minnkaði muninn í 2-1 strax á 5. mínútu síðari hálfleiks. Selfyssingum gekk illa að stýra leiknum í kjölfarið og hefðu þurft að vera svalari, en létu þess í stað dómarann og gestina, sem voru fastir fyrir, fara í taugarnar á sér. Liðin sköpuðu sér ekki mörg færi og það var ekki fyrr en á 84. mínútu að Selfyssingar gátu andað léttar þegar Kenan Turudija skoraði gott skallamark og tryggði Selfossi 3-1 sigur.
Stórleikur í næstu umferð
Selfoss er í 4. sæti deildarinnar með 16 stig að loknum níu umferðum. Næsta verkefni liðsins er stórleikur gegn Njarðvík á útivelli næstkomandi miðvikudag en Njarðvík er í 3. sæti með 16 stig.