Stjórn og þjálfarar handknattleiksdeildar Selfoss hafa, eftir ráðleggingar frá rakningarteyminu, ákveðið að fella niður allar æfingar og viðburði, mót og leiki á vegum handknattleiksdeildar í dag og um helgina.
„Samfélagið okkar er lítið og þétt og við erum með nokkra þjálfara og leikmenn ýmist með COVID-19, í sóttkví eða smitgát og því teljum við best að fella niður starfið til að sýna samfélagslega ábyrgð á meðan smitrakning er að ná utan um málin á Selfossi,“ segir í tilkynningu frá handknattleiksdeildinni þar sem vonast er til að allir geti mætt á æfingar í öruggu umhverfi í næstu viku.