Samstarf um íþróttaþjálfun fatlaðra

Sólheimar og Íþróttafræðasetur menntavísindasviðs Háskóla Íslands gengu í dag frá samkomulagi um samstarf um nám sem tengist þjálfun fatlaðra í grunn- og framhaldsnámi.

Meðal þess sem samstarfið tekur til er að hafa samráð og samstarf um nám sem tengist þjálfun fatlaðra í grunn- og framhaldsnámi í íþrótta- og heilsufræði við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild Háskóla Íslands.

Nemendum Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar Háskóla Íslands verður gefinn kostur á að vinna sín lokaverkefni í tengslum við starfsemi Sólheima og Sólheimar munu útvega þeim háskólanemendum sem tengjast þeim þá aðstöðu og aðbúnað sem þeir geta veitt.

Íþróttafræðasetur mun hafa milligöngu um að háskólanemar á Laugarvatni komi að og sinni íþróttakennslu og íþróttaþjálfun á Sólheimum og Sólheimar munu fá að notfæra sér niðurstöður úr þeim verkefnum sem eru unnin í tengslum við Sólheima.

Íbúar Sólheima hafa um árabil notið samstarfs við nemendur íþróttafræðasetursins á Laugarvatni en með samkomulagi þessu er samstarfið fest í sessi og mun það gefa báðum aðilum fjölda tækifæra.

Af þessu tilefni komu saman Erlingur Jóhannsson deildarforseti Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar, Sigurbjörn Árni Arngrímsson námsbrautarstjóri og Guðmundur Ármann Pétursson framkvæmdastjóri Sólheima sem rituðu undir samkomulagið í viðvist stjórnar íþróttafélagsins Gnýs og annarra íbúa Sólheima.

Guðmundur Ármann segir að íbúar Sólheima séu þakklátir Íþróttafræðasetri menntasviðs Háskóla Íslands fyrir þann góða vilja, metnað og áhuga sem Íþróttafræðasetrið sýnir íbúum Sólheima og er hér markað upphaf að löngu og árangursríku samstarfi.

Fyrri greinDraghundahlaup um helgina
Næsta greinBakkatúnsmálinu áfrýjað