Selfyssingar unnu mjög öruggan sigur á Fram í Olísdeild karla í handbolta þegar liðin mættust í Vallaskóla í kvöld, 31-25.
Fram komst í 1-3 í upphafi leiks en Selfoss svaraði með 5-1 áhlaupi og breytti stöðunni í 6-4. Eftir það var fyrri hálfleikur í járnum þar til tæpar tíu mínútur voru eftir. Þá kom Einar Vilmundarson í markið hjá Selfyssingum og gjörsamlega skellti í lás. Einar varði sjö skot á átta mínútna kafla og Selfoss leiddi 17-13 í hálfleik.
Selfyssingar voru miklu betra liðið í síðari hálfleik. Munurinn varð mestur sjö mörk þegar rúmar tíu mínútur voru eftir en þá voru Framarar búnir að kasta inn handklæðinu og virtust ekki líklegir til afreka.
Selfoss lyfti sér upp í 3. sætið með sigrinum og hefur 14 stig. Fram er í 8. sæti með 10 stig.
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk, Hergeir Grímsson skoraði 6, Elvar Örn Jónsson 4, Andri Már Sveinsson 3, Guðni Ingvarsson og Teitur Örn Einarsson 2 og þeir Sverrir Pálsson, Alexander Egan, Eyvindur Hrannar Gunnarsson, Haukur Þrastarson og Guðjón Ágústsson skoruðu allir 1 mark.
Einar Vilmundarson varði 15 skot í marki Selfoss og Helgi Hlynsson 4/1.