Kvennalið Selfoss mun leika áfram í Olísdeildinni í handbolta á næstu leiktíð. Selfoss vann stórsigur á KA/Þór í þriðja leik liðanna í einvíginu um sæti í efstu deild, 38-23, í Vallaskóla í kvöld.
Selfoss vann þar með einvígið 3-0 en Selfosskonur fóru í gegnum alla úrslitakeppnina án þess að tapa leik, hvorki gegn HK eða KA/Þór.
Sigur Selfyssinga í kvöld var sannfærandi. Liðið kláraði fyrri hálfleikinn af miklum krafti og leiddi 21-12 í leikhléi. Selfoss gaf ekkert eftir í seinni hálfleik heldur bætti við forskotið jafnt og þétt þar til fimmtán mörk skildu að.
Þær vínrauðu fara því glaðar inn í sumarfríið eftir langt og strangt tímabil. Markaskorarar liðsins í kvöld voru Perla Ruth Albertsdóttir, sem var atkvæðamest með 11 mörk og frábær í vörninni. Dijana Radojevic skoraði 8 mörk, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 5, Kristrún Steinþórsdóttir og Adina Ghidoarca 4, Hulda Dís Þrastardóttir 3 og þær Elva Rún Óskarsdóttir, Ásta Margrét Jónsdóttir og Katla María Magnúsdóttir skoruðu allar 1 mark.