Þór Þorlákshöfn vann sannfærandi sigur á ÍR í úrvalsdeild karla í körfubolta, þegar liðin mættust í Þorlákshöfn í kvöld.
Fyrsti leikhlutinn var jafn og staðan að honum loknum var 32-27. Þórsarar mættu hins vegar af miklum krafti inn í 2. leikhlutann og voru komnir með gott forskot í hálfleik, 57-37.
Sigur Þórsara var aldrei í hættu í seinni hálfleik, þeir spiluðu frábæra vörn og héldu ÍR-ingum í 21 stigi í öllum seinni hálfleiknum. Á meðan gekk sóknarleikur Þórsara vel og stigin komu úr öllum áttum.
Ragnar Örn Bragason var stigahæstur Þórsara með 18 stig, Adomas Drungilas skoraði 17 og tók 11 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson skoraði 16 stig, Halldór Garðar Hermannsson 12 og Callum Lawson 11.
Þetta var þriðji sigur Þórsara í fimm leikjum sem lyfta sér nú upp í efri helming stigatöflunnar í úrvalsdeildinni.