Sannfærandi sigur Selfoss

Ragnar Jóhannsson sækir að vörn Gróttu í kvöld og Elvar Elí Hallgrímsson er við öllu búinn inni á línunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann nokkuð auðveldan sigur á Gróttu frá Seltjarnarnesi á heimavelli í Set-höllinni í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

Selfyssingar höfðu frumkvæðið í leiknum frá fyrstu mínútu og þegar tuttugu mínútur voru liðnar var munurinn orðinn fimm mörk, 12-7. Gróttumenn áttu fá svör við góðum leik Selfyssinga sem leiddu 16-12 í hálfleik.

Á upphafsmínútum seinni hálfleiks völtuðu Selfyssingar yfir Seltirninga og náðu átta marka forskoti, 22-14. Eftirleikurinn var ákaflega auðveldur og að lokum skildu níu mörk liðin að, 32-23.

Selfoss er áfram í 8. sæti deildarinnar, nú með átta stig, en Grótta er í 10. sæti með fimm stig.

Guðmundur Hólmar Helgason var maður leiksins hjá Selfyssingum og markahæstur með 7 mörk, Ragnar Jóhannsson skoraði 5, Árni Steinn Steinþórsson, Alexander Egan og Hergeir Grímsson 3, Einar Sverrisson 3/1, Ísak Gústafsson og Richard Sæþór Sigurðsson 2 og þeir Karolis Stropus, Guðjón Baldur Ómarsson, Tryggvi Þórisson og Elvar Elí Hallgrímsson skoruðu allir 1 mark.

Markmenn Selfoss áttu mjög góðan leik. Vilius Rasimas varði 14 skot og var með 41% markvörslu og Sölvi Ólafsson varði 1/1 skot og var með 33% markvörslu.

Fyrri greinLítilsháttar tap á rekstri SASS 2020
Næsta greinSkellt í lás í Hrunamannahreppi