Sannfærandi sigur Þórsara

Jordan Semple. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn tók á móti Hetti í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Eftir jafnan fyrri hálfleik voru Þórsarar allsráðandi í seinni hálfleik og sigruðu 106-84.

Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en um hann miðjan skoruðu Þórsarar átta stig í röð og staðan var 29-20 eftir tíu mínútna leik. Hattarmenn svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta og staðan var 53-48 í hálfleik.

Þórsarar fóru á kostum í 3. leikhluta, bæði í vörn og sókn og gerðu nánast út um leikinn á þessum kafla. Í upphafi 4. leikhluta var staðan orðin 86-66 og heimamenn kláruðu leikinn af miklu öryggi og lönduðu sannfærandi sigri.

Ólafur Björn Gunnlaugsson, Marreon Jackson og Justas Tamulis skoruðu allir 17 stig fyrir Þór en Jordan Semple var framlagshæstur með 15 stig, 11 fráköst og 6 stoðsendingar.

Staðan í deildinni er þannig að Þórsarar eru í 5. sæti með 10 stig en Höttur er í 9. sæti með 6 stig.

Þór Þ.-Höttur 106-84 (29-20, 24-28, 29-15, 24-21)
Tölfræði Þórs: Marreon Jackson 17/8 fráköst/9 stoðsendingar, Justas Tamulis 17, Ólafur Björn Gunnlaugsson 17/5 fráköst, Jordan Semple 15/11 fráköst/6 stoðsendingar, Nikolas Tomsick 14, Morten Bulow 9/5 fráköst/5 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 7, Ragnar Örn Bragason 4, Arnór Daði Sigurbergsson 3, Davíð Arnar Ágústsson 3, Baldur Böðvar Torfason 1 frákast/1 stoðsending.

Fyrri greinMímisdrengir mættu eftir 37 ára hlé
Næsta grein„Gleðjumst yfir betri stöðu en höldum fókus á verkefnin framundan“