Í gær voru undirritaðir formlegir samningar um Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina 2012.
Helga Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ og Guðríður Aadnegard, formaður HSK skrifuðu undir samning um að HSK taki að sér mótshaldið og Þórir Haraldsson, formaður framkvæmdanefndar og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar undirrituðu samstarfssamning um framkvæmd mótsins.
Unglingalandsmót UMFÍ eru meðal stærstu íþróttamóta á landinu og hafa þau unnið sér fastan sess sem vímulaus fjölskylduhátíð um verslunarmannahelgi. Aðstaða á Selfossi til mótshaldsins er öll til fyrirmyndar og þar sem stærstu keppnisstaðir eru mjög nærri aðalmótssvæðinu við Engjaveg má fullyrða að á Selfossi sé ein allra besta aðstaða á landinu til að halda stórmót sem þetta.
Þá er nú unnið að frágangi tjaldsvæða, búið er að fá ségreinastjóra til að sjá um allar keppnisgreinar, skipulag og undirbúningur allur kominn á skrið.
Miðað við reynslu undanfarinna ára búast mótshaldarar við 15 – 20 þúsund gestum á Selfoss enda hefur mótið notið sívaxandi vinsælda meðal unglinga og fjölskyldna þeirra.
Þórir Haraldson, formaður framkvæmdanefndarinnar sagði HSK og heimamenn á Selfossi vera staðráðna í að leggja mikinn metnað í mótshaldið en allir Sunnlendingar þurfi að sameinast um að taka vel á móti þessum mikla fjölda gesta, framkvæma glæsilega og eftirminnilega íþróttahátíð fyrir alla fjölskylduna.
„Þetta er sannkallað stórverkefni og við þurfum að eiga góða samvinnu við Selfyssinga og Sunnlendinga alla. Við ætlum auðvitað að láta mótið heppnast vel, okkur öllum til sóma, samfélaginu til framdráttar, þátttakendum og gestum til ánægju. Það er ærið verkefni sem kallar á góða samvinnu við sveitarfélagið Árborg sem stendur mjög vel að undirbúningi mótsins, en einnig reynir á samtakamátt okkar Sunnlendinga, einstaklinga og félagasamtaka. Við Sunnlendingar eigum geysisterka ungmennafélagshreyfingu, ríka hefð fyrir félagsstarfi og sjálfboðastarfi og við höfum oft áður sýnt að þegar á reynir þá stöndum við saman og leysum stórverkefni sem þetta með sóma,“ sagði Þórir eftir undirritunina.