Sara Ástþórsdóttir á Dívu frá Álfhólum og Valdimar Bergstað á Prins frá Efri-Rauðalæk sigruðu í slaktaumatölti og fljúgandi skeiði í Meistaradeildinni í hestaíþróttum í kvöld.
Það var fín stemmning í Ölfushöllinni á meðan á keppni stóð í kvöld.
Sara og Díva fengu 8,54 í einkunn í slaktaumatöltinu. Jakob Svavar Sigurðsson og Alur frá Lundum urðu í 2. sæti með 8,29 en þeir voru í efsta sætinu eftir forkeppni. Hulda Gústafsdóttir og Sveigur frá Varmadal sigruðu í B-úrslitum og unnu sig upp í 3. sætið í A-úrslitum með 8,00 í einkunn.
Þeir félagar Valdimar Bergstað og Prins frá Efri-Rauðalæk, sigruðu fljúgandi skeiðið á tímanum 5,63. Annar varð Ragnar Tómasson á Isabel frá Forsæti á sama tíma og Valdimar en Valdimar var með betri tíma út úr fyrri spretti. Þriðji varð Sigurbjörn Bárðarson á Flosa frá Keldudal á tímanum 5,69.
Eftir að keppni kvöldsins var lokið hafði Sara skotist upp í efsta sæti í stigakeppni einstaklinga með 34 stig. Á hæla hennar í kemur svo Jakob með 33 stig og Artemisa Bertus, sem vann tvö fyrstu mótin, en vann ekki til stiga í kvöld er með 30 stig.