Keppendur frá sunddeild Selfoss náðu góðum árangri á Ásvallamóti SH sem fram fór í Hafnarfirði um helgina.
Fjórir sundmenn úr gull- og silfurhópum á Selfossi kepptu á mótinu og þurftu þeir að hafa náð ákveðnum lágmörkum til þess að öðlast keppnisrétt á mótinu.
Sara Ægisdóttir náði bestum árangri þegar hún synti 50 m skriðsund á 29,03 sek. Hún varð í 6. sæti og bætti sig um 1,61 sek frá því í lok janúar.
Sara synti 100 m skriðsund á 1:04,51 mín og 200 m fjórsund á 2:46,61 mín og bætti sig um 14 sekúndur.
Sara hefur nú náð fjórum lágmörkum inn á Íslandsmeistarmótið í sundi í 50 m laug sem fram fer í byrjun apríl. Fjórða sundið er 200 m skriðsund en Sara synti á 2:26,71 mín á vormóti Fjölnis fyrstu helgina í mars.
Hallgerður Höskuldsdóttir stóð sig líka vel á mótinu um helgina. Hún synti fjórar greinar og bætti sig í þremur þeirra.