Hamar vann öruggan sigur á botnliði Njarðvíkur í Domino's-deild kvenna í körfubolta í kvöld, 84-54.
Fyrri hálfleikur var hnífjafn, 15-14 að loknum 1. leikhluta og 34-32 í hálfleik. Hamarskonur mættu hins vegar brjálaðar til leiks í seinni hálfleik og hófu hann með 16-3 áhlaupi. Hvergerðingar héldu áfram og náðu tuttugu stiga forskoti undir lok 3. leikhluta, 65-45.
Njarðvíkingar áttu engin svör við ákefðinni í Hamarskonum og köstuðu inn handklæðinu í fjórða leikhluta á meðan Hvergerðingar röðuðu niður þristunum og juku forskotið enn frekar. Hamar setti niður sextán þrista í leiknum, þar af var Chelsie Schweers með níu þriggja stiga körfur en hún var stigahæst hjá Hamri með 33 stig.
Fanney Guðmundsdóttir skoraði 18 stig, Marín Davíðsdóttir 16 auk þess að taka 13 fráköst, Íris Ásgeirsdóttir skoraði 7 stig, Kristrún Antonsdóttir 6 og þær Sóley Guðgeirsdóttir og Katrín Eik Össurardóttir skoruðu báðar 2 stig.
Hamar er í 6. sæti Domino’s-deildarinnar með 18 stig og mætir næst KR á útivelli á miðvikudagskvöld en KR er í 5. sæti deildarinnar, sömuleiðis með 18 stig.