Schweers til liðs við Hamar

Hamar tefldi fram nýjum bandarískum leikmanni í leiknum gegn Val í Domino's-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Chelsie Schweers hefur leyst Di'Amber Johnson af hólmi.

Schweers kom til landsins á mánudaginn og lék vel í sínum fyrsta leik fyrir félagið í kvöld. Hún var stigahæst Hvergerðinga með 25 stig og 8 fráköst.

Schweers fór í gegnum Northfolk Virgina háskólann í Bandaríkjunum áður en hún fór í atvinnumennsku í Grikklandi og Ástralíu. Hún kemur þó til Hamars frá Bandaríkjunum þar sem hún vann við þjálfun, en atvinnumennskan freistaði hennar og því tók hún slaginn á Íslandi.

„Það var sameiginleg ákvörðun hjá mér og stjórninni að við þyrftum að fá ferskan blæ inn í liðið. Okkur vantaði meiri leiðtoga heldur en við vorum með og ég held að Chelsie hafi sýnt það hér í kvöld hvað í henni býr. Hún steig upp þegar við þurftum á henni að halda og stýrði þessu af miklu öryggi,“ sagði Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari Hamars, í samtali við sunnlenska.is eftir leikinn í kvöld.

Fyrri greinHamar með gott tak á Val
Næsta greinMaðurinn fluttur með þyrlu til Reykjavíkur