Sebastian: Hugsanlega hættur sem þjálfari

"Ég hef áhuga á að taka eitt tímabil í viðbót sem leikmaður og gefa jafnvel einhverjum öðrum færi á að fara lengra með þetta lið," sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta, eftir sigurleikinn á Aftureldingu í gærkvöldi.

„Það er alveg hugsanlegt að ég hætti sem þjálfari, ég mun leggjast yfir þetta núna en staðreyndin er sú að mér er búið að finnast svo gaman að keppa í vetur að ég get eiginlega ekki hugsað mér að hætta sem leikmaður. Ég var að standa mig frábærlega fyrir áramót í engu formi og ef ég kæmi mér í smá form þá gæti ég tekið eitt formlegt kveðjutímabil. Ég skulda sjálfum mér það að klára þennan frábæra feril sem ég hef átt á þann hátt. Mig langar ennþá og ég get þetta ennþá, skrokkurinn er fínn þó að ég mætti alveg missa einhver tíu kíló,“ sagði Sebastian í samtali við sunnlenska.is.

Sebastian er ánægður með framgöngu liðsins í vetur. „Það er gaman að fá svona úrslitaleik og brjálað stuð en staðreyndin er sú að við töpum bara þremur leikjum í þessari deild í vetur og eigum titilinn fyllilega skilið. Fyrst töpuðum við á ævintýralegan hátt í Mosfellsbæ og þó þeir myndu fá hundrað tækifæri þá myndu þeir aldrei vinna þann leik aftur. Tapið gegn ÍR var hörmulegt slys en eini leikurinn sem við töpum verðskuldað er úti í Eyjum gegn ÍBV, þannig að mér fannst við vera með langbesta liðið í þessari deild.“

Sebastian byrjaði leikinn í markinu en Birkir Fannar Bragason kom svo inn þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum og reyndist vera hetja liðsins. „Þetta var bara taktík. Við Birkir ræddum þetta fyrir leik og töldum að það myndi henta honum betur að byrja útaf. Hann er náttúrulega bara frábær markmaður og einn af efnilegustu markvörðum landsins. Þegar hann varði fyrsta skotið sitt þá hafði ég fulla trú á því að við myndum klára þennan leik.“

Fyrri greinSandvíkurtjaldurinn lentur
Næsta greinOpið hús í nýbyggingu Hsu