
Eitt sunnlenskt mótsmet og eitt héraðsmet voru sett á Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands 15 ára og yngri sem fram fór í Kaplakrika í dag.
HSK eignaðist fimm bikarmeistara á mótinu. Auður Helga Halldórsdóttir sigraði í langstökki, stökk 4,86 m, Hrefna Sif Jónasdóttir sigraði í 400 m hlaupi á 65,81 sek, Benjamín Guðnason sigraði í kúluvarpi þegar hann kastaði 11,39 m, Haukur Arnarson sigraði í 60 m grindahlaupi á 9,11 sek og Sebastian Þór Bjarnason sigraði í langstökki, stökk 6,07 m sem er nýtt mótsmet, en gamla metið var 6,05 m.
Eitt HSK met var sett á mótinu. Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir bætti héraðsmetið í 1.500 m hlaupi 13 ára stúlkna þegar hún hljóp á 5:42,63 mín. Hún bætti fjögurra ára gamalt met Valgerðar Einarsdóttur, Umf. Hrun., um 17,99 sekúndur en gamla metið var 6:00,62 mín.
FH sigraði í stigakeppninni
Stigakeppni mótsins var jöfn og spennandi en svo fór að Fimleikafélag Hafnarfjarðar sigraði í heildarstigakeppninni með 116 stig en HSK-A varð í 2. sæti með 107 stig. HSK-B varð í 6. sæti í heildarstigakeppninni með 60 stig.
FH sigraði í stúlknakeppninni með 65 stig en HSK-A fékk 57 stig. Hjá piltunum réðust úrslitin í síðustu grein mótsins, 4×200 m boðhlaupi, þar sem FH-ingarnir urðu á undan í mark. FH fékk því 51 stig í piltakeppninni en HSK 50.


