Selfoss landaði sínum sjötta sigri í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi þegar lið Snæfells frá Stykkishólmi kom í heimsókn í Gjánna.
Selfoss byrjaði betur og leiddi 26-18 eftir 1. leikhluta en þá gerðu gestirnir áhlaup og náðu mest 20 stiga forskoti en staðan í hálfleik var 38-46.
Selfyssingar fóru vel yfir málin í leikhléi og voru fljótir að jafna, 48-48 í 3. leikhluta. Leikurinn var í járnum eftir það, allt þar til á síðustu þremur mínútunum að Selfoss náði forskoti sem Snæfellingum tókst ekki að brúa. Lokatölur leiksins urðu 90-80.
Tykei Greene var stigahæstur Selfyssinga með 29 stig, Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 20 og tók 9 fráköst, Vojtech Novák skoraði 15 stig og tók 12 fráköst og Arnór Eyþórsson skoraði 11 stig og tók 6 fráköst.
Selfyssingar eru í 9. sæti deildarinnar með 12 stig en Snæfell á botninum með 4 stig.