Seinni hálfleikurinn erfiður

Abby Beeman var nálægt þrefaldri tvennu í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór heimsótti Njarðvík í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í kvöld. Eftir ágætan fyrri hálfleik Hamars/Þórs tóku Njarðvíkingar öll völd í seinni hálfleik og sigruðu 98-70.

Njarðvík byrjaði betur og komst í 18-4 en þá kom góður kafli hjá Hamri/Þór sem minnkaði muninn í 20-19. Njarðvíkingar skoruðu hins vegar síðustu níu stigin í 1. leikhluta og staðan var 29-19 að honum loknum. Annar leikhluti var í járnum en þeim sunnlensku tókst ekki að minnka muninn og staðan var 56-45 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var Hamri/Þór erfiður. Njarðvík náði fljótlega 25 stiga forskoti og í upphafi 4. leikhluta gerði Njarðvík 14-6 áhlaupi og staðan orðin 93-61. Eftir það átti Hamar/Þór ekki afturkvæmt.

Hana Ivanusa var stigahæst hjá Hamri/Þór með 15 stig og 8 fráköst en Abby Beeman var framlagshæst með 9 stig, 8 fráköst og 12 stoðsendingar.

Hamar/Þór er í 6. sæti deildarinnar með 6 stig en Njarðvík er í 2. sæti með 10 stig.

Njarðvík-Hamar/Þór 98-70 (29-19, 27-26, 23-10, 19-15)
Tölfræði Hamars/Þórs: Hana Ivanusa 15/8 fráköst, Abby Beeman 9/8 fráköst/12 stoðsendingar, Anna Soffía Lárusdóttir 9, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 8, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 7, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 6, Bergdís Anna Magnúsdóttir 5, Fanney Ragnarsdóttir 4, Gígja Rut Gautadóttir 4, Teresa Sonia Da Silva 3, Vilborg Óttarsdóttir 1 frákast.

Fyrri grein„Fátt innan veggja Litla-Hrauns sem örvar heilann eins og námið“
Næsta greinFlottur sigur í fjörugum leik