Sektir fyrir myndir í Sunnlenska

„Hugmyndin kemur frá því þegar ég var í Fylki,“ segir Sævar Þór Gíslason, leikmaður Selfoss, um sektarsjóð knattspyrnuliðs Selfoss.

Leikmenn liðsins eru sektaðir fyrir ýmsa hluti, svo sem að koma of seint á æfingu eða í leik, fá óþarfa spjald og að vera klobbaðir í reitabolta á æfingum svo eitthvað sé nefnt. „Við ákváðum að gera þetta til að mynda meiri liðsheild,“ segir Sævar.

Sektirnar eru allt frá 200 kr. sem er t.a.m. sektin fyrir að fá mynd birta af sér í Sunnlenska og til 12.000 kr. fyrir að mæta ekki í fjáraflanir sem stjórn eða leikmannaráð hefur boðað til. „Það er alltaf að bætast við á sektarlistann. Ingi Rafn kom með þessa hugmynd að sekta fyrir myndabirtingu í staðarblöðunum frá ÍBV,“ segir Sævar.

Andri Freyr Björnsson er sá leikmaður sem skuldar mest í sjóðinn það sem af er þessu sumri. „Hann hefur ekki enn áttað sig á því að leggja fimm mínútum fyrr af stað á æfingar og fær því oft sekt fyrir að mæta of seint,“ segir Sævar. „Hann segir oft að mamma sín hafi verið að þvo sokkana hans og þess vegna mæti hann of seint.“

Peningarnir eru svo notaðir til að þjappa hópnum saman. „Liðið gerir reglulega eitthvað saman utan æfinga til að bæta móralinn og peningurinn úr sjóðnum er notaður til að borga þær ferðir,“ segir Sævar.

Eftir að hafa séð um sjóðinn frá stofnun hans hefur Sævar stigið til hliðar. „Ég er búinn að sjá um þetta síðustu fjögur ár en nýverið tók Jóhann Ólafur við yfirumsjón sjóðsins. Ég var orðinn svo þreyttur á röflinu í litlu strákunum,“ segir Sævar sem er ánægður með nýja sjóðsstjórann. „Jói er að standa sig eins og hetja.“

Fyrri greinHeilsuvika í Rangárþingi eystra
Næsta greinHafa tekið við af Eden