Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við spænska leikmanninn Selena Salas til eins árs en hún gengur í raðir liðsins frá Fjarðabyggð/Hetti/Leikni.
Selena var lykilmaður í liði FHL sem tryggði sér sæti í Bestu deildinni á síðustu leiktíð. Hún spilaði átján leiki og skoraði sex mörk. Selena er fjölhæfur leikmaður sem getur leyst miðjustöðuna og allar sóknarstöður. Þess má geta að Selena hefur menntað sig sem íþróttasálfræðingur.
„Selena er frábær viðbót við hópinn okkar. Hún hefur verið að spila á Spáni í vetur og er í toppstandi. Hún er frábær manneskja og metnaðarfullur leikmaður sem okkur hlakkar til að vinna með,“ segir Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss.
